Þessi skinkuhorn eru einstaklega ljúffeng og góð. Deigið sjálft er það sama og er í kanilsnúðunum mínu frægu sem eru hvað þekktastir fyrir að vera einstaklega mjúkir og ljúffengir, bara svona svo þið vitið við hverju þið megið búast við af þessum skinkuhornum.
Fyllingin sjálf er svakalega góð! Skinkan hágæða lærkjöt sem iniheldur 95% kjöt sem þýðir að öll aukaefni eru í algjöru lágmarki og því sérlega hollur og góður kostur þegar kemur að bæði heilsu og bragðsjónarmiðum. Paprikusmurosturinn gefur ótrúlega gott bragð og skemmtileg tilbreyting frá skinkusmurostinum sem getur stundum verið smá of mikið að mínu mati. Mér finnst skemmtilegra að leyfa hágæða skinkubragðinu úr góðu skinkunni að njóta sín. Hornin eru svo pensluð með eggi fyrir bakstur og dreift smá af rifnum osti yfir þau til að gera þau ennþá betri.
Mér finnst ótrúlega sniðugt að gera tvöfalda uppskrift af skinkuhornum og setja helminginn í frysti, taka svo alltaf nokkur út úr frysti til að eiga í nesti og fleira þannig háttar.




Ljúffeng skinkuhorn
- 120 ml volgt vatn
- 120 ml volg mjólk
- 12 g þurrger
- ½ dl sykur
- 80 g brætt smjör
- 1 egg
- 500 g hveiti
- 1 tsk salt
Skinkufylling:
- 300 g smurostur með papriku
- 300 g skinka úr lærvöðva – silkiskorin – 95% kjöt
- 100 g rifinn ostur
Toppur
- 100 g rifinn ostur
- 1 egg
Aðferð:
- Setjið volgt vatn, volga mjólk, þurrger og sykur í frekar stóra skál og hrærið saman. Leyfið blöndunni að taka sig í u.þ.b. 2-3 mín.
- Setjið smjör, egg, hveiti og salt út í skálina og hrærið saman þar til orðið að nokkuð þéttu en samt ennþá klísturuðu deigi. Setjið hreint viskastykki yfir skálina og látið standa við stofuhita (eða stillið ofninn á 30°C og setjið skálina inn í ofninn), leyfið deiginu að hefa sig í u.þ.b. 1 klst.
- Útbúið fyllinguna með því að setja smurost í skál, skerið skinkuna í litla bita hrærið saman við smurostinn.
- Kveikið á ofninum og stillið á 200°C, undir og yfir hita.
- Skiptið deiginu í 4 jafna hluta. Fletjið hvern hlut út í hring og skerið deigið í 8 jafna þríhyrninga (eins og maður sker pizzu), mér finnst gott að nota pizzahníf í þetta.
- Skiptið fyllingunni í 4 jafna hluta. Skiptið einum hluta af fyllingunni á þríhyrningana, setjið fyllinguna á breiðasta hlutann. Setjið smá rifinn ost yfir fyllinguna og rúllið svo deiginu upp frá breiðari endanum. Endurtakið fyrir allt deigið.
- Raðið hornum á smjörpappísklædda ofnplötu. Setjið 1 egg í skál og hrærið það saman, penslið því svo á skinkuhornin. Dreifið svolítið af rifnum osti yfir hornin.
- Bakið í u.þ.b. 10 mín eða þar til þau eru byrjuð að gyllast á litinn.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar






