Þegar haustið nálgast finnst mér ekkert meira „cozy“ en að fylla eldhúsið af ilm af kryddum, brúnu smjöri og nýbökuðum smákökum. 🍂💛 Þessar „pumpkin spice“ súkkulaðibitakökur eru eins og lítil haustútgáfa af hamingju – seigar, bragðmiklar og kryddaðar á réttan hátt.
Grasker gefur þeim fallega rakan og mjúka áferð, kryddin hita og súkkulaðibitin toppa allt saman með sætu og djúpu bragði. Þetta eru kökur sem þú vilt hafa með tebolla, kósýteppi og haustljósum – og þær gleðja jafnt vini og fjölskyldu.
“Pumpkin spice” súkkulaðibitakökur
- 150 g smjör
- 130 g sykur
- 70 g púðursykur
- 1 eggjarauða
- 1 tsk vanilludropar
- 200 g hveiti
- 1/2 tsk matarsódi
- 1/4 tsk salt
- 2 tsk kanill
- 1/4 tsk engiferkrydd
- 1/4 tsk negull
- 75 g grasker úr dós
- 150 g Síríus rjómasúkkulaði
Aðferð:
- Setjið smjör í pott, látið það bráðna og haldið áfram að leyfa því að malla við meðal hita í pottinum þar til það hefur brúnast. Það mun byrja að bubbla mjög mikið og freyða, haldið áfram með það á hitanum þar til það hættir að bubbla og froðan verður þunn og flöt. Takið þá af hitanum og kælið svolítið. Hellið því í skál, passið að setja kornin í botninum með líka í skálina.
- Setjið sykur og púðursykur í skálina og hrærið saman. Bætið eggjarauðunni og vanilludropunum líka út í og hrærið saman.
- Setjið hveitið, matarsódann, saltið, kanil, engifer og negul út í skálina og hrærið saman við.
- Bætið graskerinu út í skálina og hrærið saman við.
- Skerið súkkulaðið frekar gróft niður og bætið út í deigið.
- Setjið deigið inn í ísskáp í minnst 30 mín eða yfir nótt.
- Kveikið á ofninum og stillið á 175°C, undir og yfir hita.
- Setjið smjörpappír á ofnplötur og útbúið kúlur úr deiginu, u.þ.b. 1 – 1 1/2 msk af deigi hver kúla. Bakið í 10-12 mín eða þar til endarnir eru bakaðir en miðjan ennþá mjúk.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar
Category: