Skúffukaka með ekta súkkulaðikremi sem krakkarnir elska!
Hér höfum við alveg dásamlega gamaldags skúffuköku með ekta súkkulaðikremi.
Kakan er afskaplega bragðgóð, létt og ljúf sem passar svo vel með kreminu sem við erum flest sammála um að sé aðal málið þegar kemur að skúffukökum.
Síríus suðusúkkulaði er aðal uppistaða kremsins en það er brætt með smjöri og rjóma sem er svo hrært saman við flórsykur. Sú blanda er kæld niður og svo hrærð upp köld með smá rjóma, þá breytist kremið í ljóst og fallegt krem.
Þessi kaka er mjög stór og hentar ofnskúffu sem er 36x43x4 cm stór eða sambærilegt. Hægt er að nota þetta form ef hluti af deiginu er sett í bollakökuform líka.
Skúffukaka með ekta súkkulaðikremi
- 350 ml olía
- 6 egg
- 500 g karamellu jógúrt
- 650 g sykur
- 75 g kakóduft frá Nóa Siríus
- 750 g hveiti
- 3 tsk matarsódi
- 2 tsk lyftiduft
- 1-2 dl volgt vatn
Krem
- 400 g suðusúkkulaði frá Nóa Síríus
- 200 g smjör
- 1-2 dl rjómi
- 500 g flórsykur
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 175°C undir og yfir hita.
- Setjið olíu og egg saman í hrærivélaskál og hrærið saman.
- Bætið karamellu jógúrtinu saman við og hrærið.
- Blandið saman hveiti, sykri, kakó, matarsóda og lyftidufti í aðra skál. Bætið því svo út í eggjablönduna rólega ásamt vatni, ath setjið fyrst 1 dl af vatni og bætið svo allt að 1 dl í vðbót ef þarf.
- Setjið smjörpappír í ofnskúffu (36x43x4 cm eða sambærilega) þannig að pappírinn nær vel upp á hliðar skúffunar líka (ég setti 2 stórar arkir ofan í skúffuna og lét þær liggja að stærstum hluta ofan á hvor annari en þannig að þær huldu allt yfirborð skúffunnar samt) og hellið svo deiginu í skúffuna. Bakið í u.þ.b. 35 mín eða þar til kakan er bökuð i gegn.
- Kælið kökuna og útbúið kremið á meðan.
- Bræðið suðusúkkulaðið og smjörið saman ásamt rjóma. Setjið svo blönduna í hrærivél og hrærið flórsykur saman við. Setjið blönduna inn í ísskáp og kælið hana alveg niður. Setjið þá blönduna aftur í hrærivél og þeytið þar til hún verður létt og ljós, ef ykkur finnst kremið svolítið þurrt er gott að bæta við örlitlum rjóma saman við.
- Smyrjið kreminu yfir kalda kökuna.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar