Þessar bollakökur eru afskaplega léttar og ljúfar.
Kökurnar sjálfar eru mjúkar og fluffý með ljúfum sítrónukeim. Kremið er svo alls ekki of sætt heldur vinnur ostabragðið vel á móti flórsykrinum og það gerir blóðappelsínu safinn líka svo kremið er afskaplega gott og ferskt ef svo mætti segja.
Þetta eru svona kökur sem maður fær ekki leið á að borða eftir nokkra bita, alls ekki of sætar eða væmnar.
Ég valdi að skreyta þær með bláberjum, brómberjum og myntu laufi þar sem mér fannst það passa svo vel með myntu grænu formunum sem ég notaði. Það er þó hægt að skreyta kökurnar með hvaða ávöxtum og berjum sem er og að sjálfsögðu hefðbundnu kökuskrauti líka.
Það eru komin mörg ár síðan ég bakaði bollakökur seinast. Það er svo fyndið hvernig kökur fara í tísku og þá sér maður nánast ekkert annað en svo detta þær bara úr tísku og engum dettur í hug að baka þær. Þannig var þetta einmitt með bollakökurnar fyrir nokkrum árum þegar þær voru hvað mest í tísku. Það rifjaðist þó upp fyrir mér þegar ég bakaði þessar bollakökur, hvað þetta er þægileg neyslustærð á kökum. Fullkomið í veislur þar sem ekki þarf að skera neina köku og hver getur bara fengið sér eina eða tvær bollakökur.
Sítrónu, ólífu olíu bollakökur með blóðappelsínu rjómaosta kremi
- 6 dl hveiti
- 4 ½ dl sykur
- 3 tsk lyftiduft
- 1 tsk salt
- börkur af ½ sítrónu
- 240 ml mjólk
- 120 ml ólífu olía
- 1 msk sítrónudropar
- 2 stór egg
- 1 dl vatn
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 175°C.
- Blandið saman öllum þurrefnunum saman í skál og geymið.
- Blandið saman öllu öðru, fyrir utan vatnið, í skál og þeytið saman.
- Bætið þurrefnunum út í blautu efnin hægt og rólega og bætið vatninu út í líka rólega, deigið verður alveg svolítið þunnt. Setjið pappírsform í bollaköku álbakka og fyllið svo formin upp 2/3 af forminu. Bakið í 15-18 mín eða þar til þær eru bakaðar í gegn.
Blóðappelsínu rjómaosta krem
- 200 g rjómaostur
- 200 g smjör, mjúkt
- 600 g flórsykur (meira ef þér finnst kremið of þunnt)
- Safi úr ½ blóðappelsínu
Aðferð
- Setjið rjómaost og smjör í skál og þeytið mjög vel saman, bætið því næst flórsykrinum og þeytið mjög vel saman. Þegar kremið er orðið létt, mjúkt og kekk laust þá kreystiði blóðappelsínuna út í, endilega rífið smá af kjötinu með því þá verður kremið svo fallegt.
- Sprautið kreminu á kökurnar með opnum stórum stjörnustút og skreytið með berjum.
Ef þú prófar þessa uppskrift, þá þætti mér svo vænt um að heyra hvernig smakkast! Skildu endilega eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben
Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!