Í byrjun september fórum við með fjölskyldu Ragnars til Spánar, nánar tiltekið Barcelona. Ferðin var hreint út sagt dásamleg og virkilega vel heppnuð!
Ein sú magnaðasta upplifun og með því skemmtilegasta sem við gerðum úti var að fara í heimsókn á vínekru Pares Balta. Fyrir léttvíns aðdáanda eins og mig er þetta eitthvað sem mig hefur alltaf dreymt um að gera.
Þessi heimsókn var besta gerð af “dream come true” sem hægt er að ímynda sér. Við fórum og skoðuðum vínekrurnar, smökkuðum vínin þar og enduðum svo á því að skoða vínframleiðsluna. Pares Balta er fjölskyldurekin vínekra sem framleiðir lífræn og vistvæn vín. Allt sem þau gera er í sátt og samlyndi við náttúruna, þau reyna ekki að stjórna náttúrunni á neinn hátt, heldur vinna með henni, og ná þannig að framleiða bragðmikil og góð vín.
Vínekrur Pares Balta eru á nokkrum mismunandi gerðum af litlum landsvæðum þar sem mismunandi veðurfar er á hverju landsvæði (e. micro climate). Sem þýðir að vínekrurnar þeirra ná frá heitu láglendi og upp í fjöll þar sem hitastig er lægra. Með því að vera með nokkrar gerðir af vínekrum ná þau að framleiða mismunandi afbrigði af vínberjum og framleiða margar gerðir af vínum.
Við fórum á jeppum upp í fjöllin og fengum að skoða vínekrurnar þar. Það var svo skemmtilegt að sjá hvernig þau samtvinnuðu vínekrunar sínar við landið. Upp í fjöllunum voru litlar vínekrur innan um fossa og skóglendi. Ómöglegt er að koma með vélar inn á flestar vínekrunar og því eru vínberin handtýnd á flestum stöðum í fjöllunum.
Við stoppuðum á nokkrum vínekrum, fengum að skoða vínberjarunnana, sjá hvernig jarðvegurinn var í kring, en eins og þið sjáið á myndunum var jarðvegurinn eins óáreittur og hægt var. Við fengum svo að smakka vínið sem var framleitt af vínekrunni sem gerði upplifunina ennþá stórkostlegri.
Eftir að við höfðum skoðað vínekrurnar fórum við inn að skoða hvernig vínin voru framleidd og geymd. Leiðsögukonan sagði okkur frá ferlinu á svo skemmtilegan hátt og sýndi okkur rýmið þar sem vínin eru geymt í eykar tunnunum.
Hún fór svo með okkur niður í cava kjallarann. Þar sýndi hún okkur hvernig cava er geymt í köldum kjöllurum, nánast óáreitt, í nokkur ár. Þar var einnig að finna rosalega kóngulóavefi sem krakkarnir voru mjög hrifnir af.
Þegar við höfðum skoðað flest sem hægt var að skoða fórum við út í garð hjá þeim þar sem þau héldu áfram að dekra við okkur og fræða. Við fengum að smakka fleiri vín frá þeim ásamt tapasréttum. Annar eigandanna kom út og spjallaði við okkur en hann hafði nokkrum sinnum komið til Íslands. Allt var þetta ein stórkostleg upplifun sem við eigum aldrei eftir að gleyma.
Fyrir áhugasama þá hvet ég ykkur til að skoða Pares Balta nánar hér og jafnvel kíkja í heimsókn til þeirra ef þið “eigið leið hjá”.
Þangað til næst
Ykkar, Linda Ben