Amerískar Súkkulaðibitakökur

Recipe by

Þessa uppskrift hef ég gert ótal oft áður, reyndar hef ég ekki gert hana í örugglega 15 ár núna (sem hljómar alveg ótrúlega langur tími reyndar…) en þetta eru súkkulaðibitakökurnar sem við gerðum í matreiðslu í grunnskóla. Kökurnar voru í alveg mjög miklu uppáhaldi hjá okkur og fengum við að baka þær nokkrum sinnum sem var yfirleitt ekki gert. Uppskriftina hef ég svo geymt í öll þessi ár enda algjör gersemi.

Amerískar Súkkulaðibitakökur

Uppskriftin er alveg ótrúlega einföld! Svo einföld að ég man ekki eftir að nokkur nemandi hafi klúðrað henni í matreiðslutímunum.

Amerískar Súkkulaðibitakökur

Kökurnar eru þykkar, mjúkar og harðna ekki. Þær eru svolítið seigar, svona akkurat eins og maður vill hafa súkkulaðibitakökur.

Amerískar Súkkulaðibitakökur

Amerískar Súkkulaðibitakökur

Þetta er skotheld uppskrift fyrir þá sem vilja hafa baksturinn sem einfaldastan, hvort sem fyrir byrjendur eða lengra komna.

Amerískar Súkkulaðibitakökur

 • 100 g smjör við stofuhita
 • 1 dl púðursykur
 • 1 dl sykur
 • 1 egg
 • ½ tsk vanilludropar
 • 3,5 dl hveiti
 • ½ tsk matarsódi
 • ½ tsk salt
 • 70 g gróft brytjað súkkulaði

Aðferð:

 1. Setjið smjör, púðursykur og sykur í skál og hrærið þar til blandan verður létt og loftmikil. Bætið þá egginu útí og hrærið saman við. Bætið því næst vanilludropunum útí.
 2. Blandið saman hveiti, matarsóda og salti saman og blandið því saman við deigið, hrærið eins lítið og þið komist upp með (hætta um leið og allt hveitið hefur blandast saman við).
 3. Skerið niður súkkulaðið og blandið því saman við deigið með sleikju.
 4. Setjið deigið inn í ísskáp og kælið í 30 mín.
 5. Kveikið á ofninum og stillið á 170°C og undir+yfir hita.
 6. Útbúið kúlur úr deiginu, 1 kúfuð msk af deigi er ein baka, raðið á ofnplötu með góðu millibili, bakið í 8-10 mín.

Amerískar Súkkulaðibitakökur

Ef þú prófar þessa uppskrift, þá þætti mér svo vænt um að heyra hvernig smakkast! Skildu endilega eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben

Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!

Ykkar, Linda Ben

2 Reviews

 1. Sæunn

  Þessar eru himneskar! Mun baka þær aftur og aftur ????

  Star
 2. Linda

  Dásamlegt að heyra elsku Sæunn!

Leave a Review

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

1 2 3 4 5