Þessi epla morgunverðarkaka er svo dásamlega góð. Hún er stútfull af hollum og góðum næringarefnum, ekki of sæt og hentar því fullkomlega á brunch eða morgunverðarborðið þegar morgunmaturinn á að vera extra góður.
Þessi köku mætti einnig kalla bakaðan hafragraut en mér finnst það bara alls ekki nógu spennandi eða girnilegt nafn og því sleppum við því.
Ef þú ert að leita þér að einhverju til að bera fram í morgunmat yfir hátíðarnar þá ertu komin inn á skotheldan rétt. Það mega flest allir borða þessa köku, líka ofnæmispésarnir, þar sem hún inniheldur hvorki egg né mjólkurvörur, einnig er má skipta út hunangi fyrir hlynsíróp og þá er hún orðin vegan.
Epla morgunverðarkaka (v)(án mjólkur og eggja)
- 2 msk hörfræ
- 1/2 dl vatn
- 130 g haframjöl
- 2 tsk lyftiduft
- 70 g hnetusmjör
- 2 msk hunang/hlynsíróp
- 510 g (3 krukkur) jóla hafrajógúrt með eplum og kanil frá Veru Örnudóttir (1 1/2 krukka sett í deigið, kakan er borin fram með því sem eftir er þegar hún er tilbúin)
- 2 rauð epli
- 50 g fersk trönuber (notað sem skraut, má sleppa)
- 1 msk flórsykur
Aðferð:
- Setjið hörfræ og vatn í skál, hrærið saman og látið standa. Blandan mun þykkna eftir nokkrar mín.
- Kveikið á ofninum og stillið á 175°C, undir og yfir hita.
- Setjið haframjöl og lyftiduft í skál, hrærið saman.
- Setjið hnetusmjörið í skálina ásamt hunangi, hörfræjarblöndunni og 1 1/2 krukku af hafrajógúrtinu, blandið öllu vel saman.
- Kjarnhreinsið epli og skerið þau í þunnar sneiðar, bætið út í deigið og blandið öllu vel saman.
- Smyrjið 22 cm kökuform og setjið deigið í formið og bakið í u.þ.b. 40 mín eða þar til kakan er bökuð i gegn. Kælið kökuna.
- Dreifið trönuberjum yfir og sigtið flórsykri yfir kökuna. Berið fram með jóla hafrajógúrti.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar