Linda Ben

Fjórar heimagerðar kryddolíur

Kryddolíur eru frábærar til þess að bragðbæta mat og hægt að nota í almenna matargerð. Mitt uppáhald er að dreifa henni ydir pizzur og pasta en það er einnig gott að setja kryddolíur ofan á salat og nota í marineringu.

Kryddolíur eru líka svo fallegar og þess vegna gaman að bera þær fram á borð.

Það er einfalt að gera kryddolíur en örlítið vandasamt og krefst þess að fylgja nokkrum reglum. Mikilvægt er að hita olíuna aðeins þangað til nokkrar loftbólur myndast og slökkva svo undir. Ef það byrjar að rjúka úr olíunni er hún ónýt. Einnig ber að hafa í huga að heit olía er alveg rosalega heit! Þú munt brenna þig mjög illa ef hún fer á þig, því er mikilvægt að fara varlega.

Undirbúningur:

Hreinsið glerflöskur (eins margar og kryddolíurnar sem þú ætlar að gera), best er að sótthreinsa þær með því að dýfa þeim í sjóðandi vatn í 30 sek, passið að vatnið farið alveg inn í flöskurnar líka. Takið þær upp úr vatninu og leyfið þeim að þorna á grind.

Ég fann grein á netinu með góðum leiðbeiningum um hvernig eigi að gera kryddolíur https://extension.umaine.edu/publications/4385e/.

Hafðu í huga að kryddolíur hafa mjög stuttan geymslutíma (ég miða við mest viku) og það er betra að geyma þær inn í ísskáp.

fjórar heimagerðar kryddolíur

Chilli kryddolían er mín uppáhalds ofan á pizzur en það er líka hægt að nota hana yfir salat, brauð, pasta og í almenna matargerð.

Chilli kryddolía

 • ½ tsk  Þurrkaðar chilli flögur
 • 3 stk Þurrkaðir chilli belgir
 • 2 dl ólífu olía

Aðferð:

 1. Hitið olíuna þangað til loftbólur byrja að myndast og slökkvið þá undir, leyfið olíunni að kólna í 10 mín.
 2. Raðið þurrkuðum chilli flögum og belgjum ofan í flöskuna og hellið volgu olíunni yfir.
 3. Geymið inn í ísskáp og neytið innan 10 daga

fjórar heimagerðar kryddolíur

Hvítlauksolía er klassísk ofan á pizzur og eitthvað sem allir ættu að þekkja. Einnig er gott að setja hana út á pasta, salat, brauð og í almenna matargerð.

Hvítlauks kryddolía

 • Rif úr heilum hvítlauk
 • 2 dl ólífu olía

Aðferð:

 1. Setjið ólífu olíuna í pott og setjið helminginn af rifunum ofan í pottinn, hinn helmingurinn fer ofan í flöskuna. Hitið olíuna þangað til loftbólur byrja að myndast, slökkvið þá undir pottinum og leyfið að kólna í 10 mín. Hellið olíunni svo ofan í flöskuna.

fjórar heimagerðar kryddolíur

Sítrónu kryddolía er æðisleg ofan á salat og í almenna matargerð.

Sítrónu kryddolía

 • 2 heilar sítrónur
 • 2 dl ólífu olía

Aðferð:

 1. Skolið sítrónurnar vel og þerrið þær svo ekkert vatn sé eftir. Flysjið gula börkinn af, án þess að taka bitra hvíta hlutann, setjið börkinn af einni sítrónu og setjið í pottinn með olíunni en af hinni sítrónunni fer beint ofan í flöskuna.
 2. Hitið olíuna með sítrónu berkinum þangað til loftbólur byrja að myndast, leyfið henni að kólna í 10 mín og hellið svo ofan í flöskuna.

a

Rósmarín olía er góð til að nota í marineringu og í almenna matargerð.

Rósmarín kryddolía:

 • 3-4 stilkar þurrkað rósmarín
 • 2 dl ólífu olía

Aðferð:

 1. Hitið olíuna í potti þangað til loftbólur byrja að myndast, slökkvið þá undir og leyfið olíunni að kólna í 10 mín.
 2. Setjið stilkana ofan í flöskuna og hellið olíunni yfir.

Ef þú prófar þessa uppskrift, þá þætti mér svo vænt um að heyra hvernig smakkast! Skildu endilega eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben

Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!

Ykkar, Linda Ben

Category:

Leave a Review

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

1 2 3 4 5