Linda Ben

Glæsileg og öðruvísi marengsterta

Recipe by
Comments Off on Glæsileg og öðruvísi marengsterta
4 tímar
Prep: 1 klst | Cook: 1 klst

Mig langaði aðeins að breyta til og gera marengstertu sem væri öðruvísi og glæsileg á sama tíma. Ég valdi að setja bleikan matarlit út í deigið og sprauta því svo á smjörpappírinn. Það er ótrúlegt hvað þessi einföldu skref umturnuðu þessari annars einföldu marengstertu! Kökurnar komu æðislega skemmtilega út á veisluborðinu og allir voru hrifnir.

_MG_7523

Ég gerði tvær svona marengstertur með sitthvoru munstrinu. Endilega leyfið hugmyndarfluginu ykkar að ráða og gerið ykkar eigið munstur.

_MG_7516 copy

Marengs (2 botnar):

  • 6 eggjahvítur
  • 3,5 dl sykur
  • 2 tsk kornsterkja
  • 2 tsk vanilludropar
  • 2 tsk hvítt borðedik
  • Matarlitur (val)

Fylling:

  • 500 ml rjómi
  • 2 stórir þristar
  • Falleg ber (t.d. jarðaber, bláber, hindber og græn vínber)

Aðferð:

  1. Stillið ofninn á 120ºC.
  2. Notið fullkomlega hreina hrærivéla skál, setjið eggjahvíturnar í skálina og notið þeytarann.
  3. Blandið kornsterkjunni út í sykurinn, hrærið saman.
  4. Þeytið eggjahvíturnar mjög rólega fyrst, setjið 1 tsk af sykri út í eggjahvíturnar í einu á ca ½ mín fresti, aukið hraðann hægt og rólega eftir því sem þið setjið meiri sykur út í (þolinmæðisverk en þó þess virði).
  5. Blandið saman vanilludropum og hvíta borðedikinu, hellið blöndunni út í þegar eggjahvíturnar hafa náð stífum toppum og hrærið saman við í ½ mín lengur.
  6. Ef þið viljið lita marengsinn, þá setjiði matarlit út í með vanilludropunum og hrærið saman þangað til  marengsinn hefur allur litast.
  7. Teikniði tvo 22 cm hringi á sitthvoran smjörpappírinn, snúið smjörpappírnum við (svo pennastrikið sé niður) festiði smjörpappírinn á ofnplötu með því að setja örlítið deig undir hornin á smjörpappírnum og klessið við ofnplötuna.
  8. Takið stóran sprautupoka og setjið sprautustút (t.d. nr. 2D frá Wilton) ofan í pokann. Helliði svo deiginu ofan í pokann.
  9. Til að gera rósaköku sprautið nokkrum rósum á útlínur hringsins (til að gera rós þá byrjar maður a sprauta innst og færa sig út) og fyllið svo inn í hringinn með rósum.
  10. Til að gera toppaköku, sprautiði þá toppum fyrst í útlínur hringsins (til að gera topp sprautar maður stórri doppu af deigi á smjörpappírinn, dregur svo hratt upp til að myndist toppur) og fyllir svo inn í. Gerið tvöfalt lag af toppum til að kakan verði ekki of þunn.
  11. Bakið í 50-60 mín, slökkvið svo á ofninum en ekki opna ofninn. Látið kökurnar kólna með ofninum. Takið þær út þegar ofninn hefur kólnað fullkomlega.

Fylling

  1. Þeytið rjómann.
  2. Skerið þristana smátt niður í teninga og blandið út í rjómann.
  3. Setjið 1 tsk af rjóma á kökudiskinn og svo neðri marengsinn á diskinn, festið hann niður.
  4. Setjið 2/3 af rjómanum á neðri marengsinn og jafnið vel úr honum. Setjið efri marengsinn á, þrýsið honum létt niður svo hann festist.
  5. Setjið restina af rjómanum í miðjuna á kökunni, skiljið smá svæði eftir á endinum svo munstrið á kökunni njóti sín. Skreytið með nóg berjum.

Ef þú prófar þessa uppskrift, þá þætti mér svo vænt um að heyra hvernig smakkast! Skildu endilega eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben

Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!

_MG_7505

 

_MG_7504

Njótið vel!

Ykkar, Linda Ben