Hér höfum við svo góða gulrótaköku sem inniheldur hafrakex og karamellu og hjúpuð ljúffengu rjómaostakremi. Þessi kaka minnir óneitanlega á mjúka ostaköku en er kaka.
Gulrótakakan sjálf er að sjálfsögðu út kökumixinu mínu Ljúffeng Gulrótakaka Lindu Ben. Kakan hefur fengið alveg svakalega góð viðbrögð sem ég er óendanlega þakklát fyrir. Það helsta sem ég fæ að heyra er hversu mjúk hún er og rakamikil. Hún er líka alveg rétt krydduð, ekki of sæt og einstaklega bragðgóð heilt yfir.
Maður setur smjör/olíu, egg, vatn og gulrætur út í deigið til að gera klassíska og góða gulrótaköku. Krem uppskriftin er svo aftan á pakkanum en það er afskaplega ljúffengt rjómaostakrem með sítrónukeim.
Hér er ég búin að breyta krem uppskriftinni örlítið til að kakan minni meira á ostaköku heldur en klassíska gulrótaköku.
Ég vona að þú eigir eftir að prófa þessa og líki vel við!
Ljúffeng gulróta ostaköku kaka með karamellu
- Ljúffeng gulrótakaka þurrefnablanda Lindu Ben
- 3 egg
- 175 ml olía
- 1 dl vatn
- 125 g rifnar gulrætur
Rjómaostakrem
- 300 g mjúkt smjör
- 200 g rjómaostur
- 500 g flórsykur
- 100 digestive hafrakex
- 1 1/2 dl saltkaramella (heimagerð eða keypt tilbúin)
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 175°C, undir og yfir hita.
- Rífið niður gukræturnar
- Setjið þurrefnablönduna í skál ásamt eggjum, olíu, vatni og rifnum gulrótum. Hrærið saman og skiptið deiginu á milli tveggja smurðra smelluforma.
- Bakið í u.þ.b. 25 mín eða þar til botnarnir eru bakaðir í gegn. Kælið botnana.
- Útbúið rjómaostakremið með því að setja mjúkt smjör í skál og þeyta þar til það er létt og loftmikið. Setjið þá rjómaostinn út í og blandið honum saman við smjörið. Setjið þá flórsykurinn og þeytið þar til mjúkt. Rífið sítrónubörkinn út í og kreystið örlítinn safa út í kremið.
- Setjið 1/4 af kreminu á neðri botninn og sprautið svo rönd af kremi á úthring botnsins til að mynda brún. Myljið hafrakexið og setjið helminginn ofan á kremið, setjið svo 1/3 af saltkaramellunni. Setjið svo efri botninn yfir. Hjúpið kökuna með kremi og sprautið aftur rönd af kremi á úthringinn. Setjið það sem eftir er af salt karamellunni ofan á kökuna og setjið það sem eftir er af hafrakexinu á úthring kökunnar og á kökudiskinn.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar