Hér höfum við virkilega góðan grænmetisrétt sem er fullur af hollustu og góðu bragði. Þetta er ódýr og hollur kvöldmatur sem inniheldur hátt hlutfall próteina, er mjög nærandi og seðjandi.
Það borða allir í fjölskyldunni vel af þessum rétt þar sem hann er svo góður og þægilegt að borða hann.
Ég smelli yfirleitt í naan brauð með þessum rétti til að gera aðeins meira úr matarupplifuninni. Stundum set ég rifinn ost í naan brauðið en stundum sleppi ég því. Einnig nota ég stundum heilhveiti í naan brauðið til að gera það ennþá hollara sem ég er mjög hrifin af, krökkunum finnst það þó svolítið skrítið á litinn þegar ég geri það.
Ég mæli með að kreista smá lime safa yfir í lokin og bera fram með hreinu jógúrti, það er rosalega gott.
Ég verslaði í þennan rétt á þurrvörubarnum í Krónunni í Skeifunni sem er algjör snilld. Þar kaupir maður hráefni eins og linsubaunir í akkúrat því magni sem maður þarf og setur í umbúðir sem maður tekur að heiman, umhverfisvæn og ódýr lausn.
Linsubaunaréttur með naan brauði ódýr matur
- 1 laukur
- 1 msk smjör
- 4 hvítlauksrif
- 2 cm engifer
- 1 ½ tsk paprikukrydd
- 1 tsk cumin krydd
- 1 tsk túrmerik
- ¼ tsk cayenne pipar
- 1 tsk salt
- ¼ tsk svartur pipar
- 300 g linsubaunir
- 2 dósir (800 g) niðursoðnir hakkaðir tómatar
- 1 liter vatn
- 2 dósir (800 ml) kókosmjólk
- 2 kjúklingateningar (eða grænmetisteningar)
- Safi úr ½ – 1 lime
- Hreint grískt jógúrt
Aðferð:
- Skerið laukinn og steikið upp úr smjöri í stórum potti, helst steypujárnspotti ef þið eigið hann til.
- Rífið hvítlauksrifin og engiferið út á og steikið með.
- Setjið kryddin út á pottinn og hrærið.
- Setjið hökkuðu tómatana út á pottinn.
- Skolið linsubaunirnar og bætið út á pottinn, hrærið öllu vel saman.
- Bætið vatninu, kókosmjólkinni og kjúklingateningunum út á, leyfið öllu að malla saman við vægan hita í u.þ.b. 30 mín eða þar til linsubaunirnar eru orðnar mjúkar og góðar og rétturinn þykknað hæfilega.
- Berið fram með hreinu jógúrti, lime og naan brauði.
Naan brauð
- 150 ml vatn
- 2 tsk þurrger
- 2 tsk sykur
- 50 g smjör
- 330 g gróft hveiti
- 1/2 tsk salt
- 50 ml (1/2 dl) hrein AB-mjólk
- 150 g rifinn mozzarella (má sleppa)
- Garam masala
- Sjávar salt
Aðferð:
- Blandið þurrgeri og sykri út í vatnið.
- Bræðið smjörið og leyfið því að kólna örlítið.
- Setjið hveiti í skál og blandið saman við gervatninu, saltinu, ab-mjólkinni og brædda smjörinu. Hnoðið deiginu saman.
- Leyfið deiginu að hefast í 30-60 mín.
- Skiptið deiginu og rifna ostinum í 6 hluta, ef þið viljið bæta við osti þá hnoðið þið rifna ostinum inn í hvern hluta af deigi og fletjið svo hlutana út.
- Kryddið deigið með garam masala og sjávar salti.
- Steikið deigið á pönnu upp úr 1 msk af smjöri á hvorri hlið.
- Berið brauðið fram heitt.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar
Mjög góður réttur, höfum gert hann þó nokkrum sinnum og slær alltaf í gegn!
Frábært að heyra! Takk fyrir að láta mig vita 😊