Nágrannakona mín gaf mér að smakka um daginn eina bestu hjónabandssælu sem ég hef nokkurntíman smakkað! Hún er svolítið ólík örðum hjónabandssælum að því leiti að það er kókosmjöl í henni og súkkulaði. Uppskriftin hefur verið algjör klassík í fjölskyldunni þeirra í fjölda mörg ár og slær alltaf í gegn. Ég var ekki lengi að fá leyfi frá henni til að deila með ykkur uppskriftinni ❤️
Ég tók mér það bessaleyfi að smella rjómasúkkulaðirúsínum í hana þar sem mér finnst þær smellpassa í þessa uppskrift og tóna svo vel við þessa ljúffengu klassík.
Nágrannasæla
- 250 g brætt smjör
- 200 g sykur
- 300 g hveiti
- 100 g haframjöl gróft
- 100 g kókosmjöl
- 1 tsk matarsódi
- 300 g rabbabarasulta
- 100 g síríus rjómasúkkulaðirúsínur
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 175°C, undir og yfir hita.
- Blandið saman sykri, hveiti, haframjöli, kókosmjöli og matarsóda.
- Bætið smjörinu saman við og blandið saman.
- Smyrjið 25 cm kökuform og setjið helminginn af deiginu í formið, pressið deigið þétt í formið.
- Setjið rabbabarasultu yfir deigið og setjið 1/2 af deiginu yfir.
- Dreifið súkkulaðirúsínum yfir og setjið svo restina af deiginu yfir, pressið saman og setjið inn í ofn, bakið í u.þ.b. 30 mín eða þar til kakan er orðin gullin á litinn.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar
Category: