Ofurfæðis pistasíu súkkulaði browniebitar sem eru dásamlega mjúkir og unaðslega bragðgóðir.
Þessir bitar eru fullir af hollu ofurfæði svo sem valhnetum, pistasíuhnetum, pekanhnetum, kakó. Mjúku döðlurnar gera bitana sæta eins og nammi og gera áferðina seiga eins og alvöru brownies eru.
Það er upplagt að smella í þessa uppskrift og skera í bita, geyma svo inn í ísskáp í lokuðu íláti til að eiga tilbúið inn í ísskáp þegar sætuþörfin kemur yfir mann.
Það er einnig upplagt að smella í brownie bitana og bjóða upp á veislum eða bera fram með ostabakkanum.
Ég mæli með að nota ferskar döðlur í þessa uppskrift, en ef þú átt þurrkaðar þá getur þú notað þær. Gott er að setja þær í skál með sjóðandi heitu vatni og leyfa þeim að liggja í vatninu í u.þ.b. 15-30 mín. Þú hellir vatninu svo af þeim áður en þú setur döðlurnar í blandarann. Þegar þú blandar döðlunum og hnetunum og öllu saman, gætir þú þurft að bæta við smá vatni til að fá áferðina mjúka og góða eins og hún á að vera.
Ofurfæðis pistasíu súkkulaðibrownie
- 250 g ferskar döðlur (þessar mjúku með steinunum)
- 60 g valhnetur
- 60 g pekanhnetur (+meira til að skreyta)
- 60 g pistasíuhnetur (+meira til að skreyta)
- 20 g kókosmjöl
- 2 msk síríus kakóduft
- 1 msk brædd kókosolía
- 1 ttsk vanilludropar
- 1/4 tsk salt (+meira til að skreyta)
- 100 g Síríus suðusúkkulaði
- Nokkur trönuber til að skreyta (má sleppa)
Aðferð:
- Fjarlægið steinana úr döðlunum.
- Setjið döðlurnar í matvinnsluvél með valhnetunum, pekanhnetunum og pistasíuhnetunum. Maukið gróft.
- Bætið kókosmjölinu út í ásamt kakódufti, bræddri kókosolíu, vanilludropum og salti, blandið saman við.
- Setjið deigið í smjörpappírsklætt form sem er 15×25 cm eða sambærilega stórt og pressið það niður.
- Bræðið suðusúkkulaðið og hellið því yfir deigið, sléttið úr súkkulaðinu. Skreytið með söxuðum pekanhnetum, pistastíuhnetum og trönuberjum.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar