Linda Ben

Sörur – klassísku jóla smákökurnar

Sörur – klassísku jóla smákökurnar

Þessa uppskrift er að finna í uppskriftabókinni minni Kökur.

Til þess að gefa ykkur örlitla innsýn inn í bókina vil ég deila með ykkur þessum æðislegu smákökum sem við íslendingarnir erum mörg hver alin upp við og eru órjúfanlegur hluti af jólahefð okkar margra.

Bókin er til sölu í flest öllum verslunum núna fyrir jólin, til dæmis: Hagkaup, Bónus, Pennanum Eymundsson til þess að nefna örfá dæmi. Einnig er hægt að kaupa hana á netinu hér: https://www.fullttungl.is/kokur

sörur linda ben kökur

Sörur

Flestir Íslendingar tengja sörur við jólin en að mínu mati má bera þær fram allan ársins hring. Í stað þess að útbúa botna úr möndlum og marengs baka ég marsípanbotna sem mér þykja hvoru tveggja bragðbetri og auðveldari í framkvæmd.
  • Um 30 kökur
  • Tími: 15 mín. (framkvæmd) + 45 mín. (kæling og framkvæmd) + 10-12 mín. (bakstur) + 30 mín. (kæling) + 15 mín. (hjúpun) = um 2 klst.
  • Geymast vel í frysti

Krem

  • 4 eggjarauður
  • 100 g sykur
  • 100 g vatn
  • 200 g súkkulaði
  • 100 g smjör, mjúkt

Botnar

  • 200 g marsípan
  • 80 g flórsykur
  • 1 eggjahvíta

Hjúpur

  • 150 g suðusúkkulaði

Aðferð

  1. Byrjið á því að útbúa kremið.
  2. Þeytið eggjarauður í hrærivél þar til blandan er orðin létt og ljós. Hitið vatn og sykur í potti í um 3 mín. eða þar til sykurinn hefur náð að leysast upp í vatninu. Hellið sykurvatninu saman við eggjarauðurnar í mjórri bunu og hrærið rólega á meðan. Þeytið þar til blandan er loftmikil og nánast hvít að lit.
  3. Bræðið súkkulaðið. Hellið því næst súkkulaðibráðinni saman við eggjablönduna í mjórri bunu og hrærið rólega á meðan. Stoppið reglulega og skafið hliðar skálarinnar með sleikju svo allt blandist vel saman. Skerið mjúka smjörið í litla bita og þeytið það saman við.
  4. Geymið kremið inni í ísskáp í um 45 mín. eða á meðan verið er að útbúa botnana.
  5. Kveikið á ofninum og stillið á 175°C með yfir- og undirhita.
  6. Rífið marsípan í skál og hrærið eggjahvítunni saman við. Bætið flórsykrinum út í og hrærið öllu saman.
  7. Setjið deigið í sprautupoka og sprautið um 2-3 cm breiðum kökum á smjörpappír á ofnplötu. Notið bakhlið á skeið til að slétta vel úr hverri köku svo þær verði um 3-4 cm breiðar og ½ cm þykkar.
  8. Bakið í 10-12 mín. eða þar til kantarnir á kökunum hafa tekið á sig gullinn lit. Leyfið botnunum að kólna á kæligrind og snúið þeim síðan við svo flata hliðin snúi upp.
  9. Smyrjið kremi á hverja köku svo það sé kúpt í miðjunni en þynnist út að köntunum. Kælið kökurnar í smá stund.
  10. Bræðið loks súkkulaði yfir vatnsbaði og hjúpið hverja köku með því að dýfa kreminu ofan í súkkulaðið. Leggið kökurnar á kæligrind á meðan súkkulaðið storknar.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben

Fylgistu með á Instagram!

Njótið vel!

Ykkar

 

 

 

 

 

sörur linda ben kökur

Leave a Review

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

1 2 3 4 5