Þessi síða var stofnuð í janúar 2016 og hefur farið örtvaxandi síðan.
Í dag er síðan orðin ein af vinsælustu uppskriftasíðum landsins og er þekkt fyrir einfaldar uppskriftir með greinagóðum leiðbeiningum sem flestum þykir þægilegt að fara eftir.
Ég heiti Linda Benediktsdóttir en flestir þekkja mig sem Lindu Ben.
Ég er menntaður lífefnafræðingur frá Háskóla Íslands.
Ég á yndislegan mann sem heitir Ragnar og saman eigum við tvö börn, hann Róbert sem er fæddur árið 2013 og Birtu sem er fædd 2019.
Við fjölskyldan tókum að okkur stórt verkefni árið 2017 þegar við ákváðum að byggja okkur einbýlishús frá grunni.
Við seldum gamla húsið okkar, fluttum í 29 fm íbúð og hófumst handa. Nú búum við í húsinu okkar og er það svo gott sem tilbúið. Þú getur skoðað Highlights á Instagraminu mínu og séð hvernig við fórum að því að vinna þetta þrekvirki.
Ég starfa sem áhrifavaldur, uppskriftahöfundur, matarstílisti og tek allar myndirnar mínar sjálf.
Það hefur gert það að verkum að mörg fyrirtæki leita til mín til þess að vinna með sér.
Hvort sem það er til þess að gera aðeins einn hlut af þessu fjórum (þ.e. ráða mig sem stílista, uppskriftahöfund, til að taka myndir eða sem áhrifavald) en flest fyrirtæki kjósa ráða mig til þess að gera alla fjóra þættina (þ.e. til semja uppskriftir, stílisera myndefnið, mynda það og að lokum auglýsa efnið á miðlunum mínum).
Ég hef unnið með mörgum stærstu matvælafyrirtækjum landsins og innflytjendum.
Verkin mín hafa til dæmis ratað í fjölmargar stórar sjónvarpsauglýsingar, á strætóskýli borgarinnar, öll helstu tímarit og matarvefsíður landsins.
Ég gaf út bókina Kökur í nóvember 2020.
Bókin fékk gríðarlega góðar viðtökur og varð hún söluhæsta matreiðslubókin jólin 2020.
Ég er svo þakklát fyrir viðtökurnar og stoltið af litla þrekvirkinu mínu, að hafa náð þessum stóra áfanga á aðeins einum mánuði, leynir sér ekki.